Vafrakökur
Við notum vafrakökur til að safna upplýsingum svo hægt sé að bæta upplifun notenda af vefnum.
Skilmálar
Almennt
Eftirfarandi skilmálar gilda fyrir alla þjónustu sem Hringdu ehf. veitir nema ef sérákvæði í sérstökum skilmálum eða samningum mæli á annan veg. Sá sem óskar eftir fjarskiptaþjónustu Hringdu skuldbindur sig til að hlíta þeim kjörum og skilmálum sem Hringdu setur um notkun þjónustunnar. Hringdu áskilur sér rétt til að gera breytingar á skilmálum og þjónustum. Breytingar eru kynntar á vefsíðunni hringdu.is með a.m.k. mánaðar fyrirvara áður en þær taka gildi.
Fjarskiptasambandi er venjulega ekki komið á við nokkra húseign, nema húseigandi leyfi endurgjaldslaust að koma fyrir fjarskiptabúnaði í húsi og á lóð og ber þeim sem óskar eftir þjónustunni, að sjá um að slíkt leyfi húseiganda fáist.
Við undirritun símaþjónustu fær viðskiptavinur úthlutað símanúmeri nema ef um númeraflutning sé að ræða og þá heldur viðskiptavinur áður úthlutuðu númeri. Viðskiptavinur þarf að óska sérstaklega eftir númeraleynd, læsingum og annarri aukaþjónustu sem í boði er.
Venjulegur afgreiðslutími á þjónustubeiðnum, þ.m.t. beiðnum um nýjar tengingar við fastlínukerfi, rétthafabreytingar, viðtökur númera og aðra þjónustuþætti, svo sem beiðnum um viðgerðir, er ekki lengri en 14 dagar frá því að beiðni kom fram, nema óviðráðanleg atvik hamli framkvæmd.
Ef viðskiptavinur vill framselja þjónustusamning sinn við Hringdu til þriðja aðila þarf að sækja um það skriflega. Ef ekkert er því til fyrirstöðu mun Hringdu samþykkja framsalið, en áður verður viðskiptavinur að greiða öll gjöld vegna notkunar á þjónustu til þess dags sem framsalið var samþykkt. Hringdu getur framselt réttindi og skyldur sínar, samkvæmt þjónustusamningi við viðskiptavinar, til þriðja aðila sem getur veitt sams konar fjarskiptaþjónustu.
Hringdu ber ekki ábyrgð á því, þótt fjarskiptasamband rofni um stund. Hringdu mun þó ávallt leitast við að koma á fjarskiptasambandi að nýju og viðhalda gæðum þjónustunnar. Verði verulegur óþarfa dráttur af hálfu Hringdu á viðgerð getur viðskiptavinur krafist endurgreiðslu á mánaðargjaldi í hlutfalli við þann tíma sem samband er rofið. Hringdu ábyrgist ekki tjón sem rekja má til sambandsleysis, rofs á fjarskiptum eða annarra truflana sem kunna verða á rekstri fjarskiptanetsins, hvort sem slíkt má rekja til línubilana, bilana í stöðvum eða annarra ástæðna.
Viðskiptavin er skylt að fara vel með allan búnað í eigu Hringdu sem þeir hafa til afnota, og eru þeir bótaskyldir á öllu því, sem aflaga fer og stafar ekki af eðilegu sliti, svo og öllu því, er glatast úr þeirra vörslu. Ef viðskiptavinur getur ekki af einhverjum ástæðum ekki skilað búnaði eða skilar búnaði sem er ekki ástandi til útleigu aftur þá er Hringdu heimilt að gjaldfæra viðkomandi um upphæð sem nemur verðmæti búnaðarins á þeim tíma sem hann var afhentur.
Ef í ljós kemur að notkun viðskiptavinar hefur verulega slæm áhrif á afgreiðslu fjarskiptaneta eða felur í sér misnotkun á búnaði og/eða þjónustu Hringdu getur félagið neyðst til að synja viðskiptavinar um eða takmarka fjarskiptaþjónustu um stundarsakir eða til frambúðar. Hið sama á við ef viðskiptavinur veldur, af ásettu ráði eða með vítaverðu gáleysi, skemmdum á fjarskiptaneti og/eða búnaði Hringdu. Hið sama á ennfremur við ef veittar eru rangar upplýsingar sem eru til þess fallnar að hafa áhrif á gerð og gildi þjónustusamnings milli viðskiptavinar og Hringdu.
Hringdu áskilur sér rétt til að víkja viðskiptavinar úr þjónustu ef viðkomandi hagar sér á ógnandi eða á dónalegan máta gagnvart starfsfólki Hringdu. Vettvangsmenn Hringdu er heimilt að neita að koma inná heimili viðskiptavinar ef aðstæður geta haft slæm áhrif á heilsu vettvangsmanns.
Ef viðskiptavinur á sök á synjun á fjarskiptaþjónustu um stundarsakir verður hann að greiða áfram mánaðargjald til Hringdu. Skylda þessi fellur niður ef annar hvor aðili segir þjónustusamningum upp.
Viðskiptavinar í ótakmarkaðri þjónustuleið er óheimilt að nota hana í atvinnurekstri. Ef Viðskiptavinur brýtur á framangreindu ákvæði áskilur Hringdu sér rétt á:riftunar á þjónustusamningi og rukka viðkomandi almenn verð skv. verðskrá fyrir þá þjónustu sem var notuð var.
Viðskiptavinir með áskrift að farsímaþjónustu og/eða gagnaflutningsþjónustu um farsímanet hjá Hringdu geta nýtt það gagnamagn sem er innifalið í viðkomandi áskriftarleið með þeim takmörkunum sem koma fram í verðskrá hverrar áskriftarleiðar innan Evrópska efnahagssvæðisins. Sérstaklega er tekið fram hvort innifalið gagnamagn sé að öllu leyti innifalið innan EES eða eingöngu að hluta. Ef viðskiptavinur klárar allt innifalið gagnamagn, skv. innanlandsverðskrá, er gjaldfært fyrir umframnotkun á grundvelli innanlandsverðskrár.
Hringdu áskilur sér rétt til að vinna úr gögnum um viðskiptavin í því skyni að bjóða honum nýjar áskriftarleiðir, þjónustu eða önnur tilboð honum til hagsbóta.
Hringdu áskilur sér rétt til þess að hafa samband við viðskiptavin í viðskiptalegum tilgangi, óháð skráningu þeirra í símaskrá. Viðskiptavinum er ávallt heimilt að afþakka slík samskipti af hálfu Hringdu.
Uppsögn á þjónustu skal berast skriflega eða senda á tölvupóstfangið uppsogn@hringdu.is fyrir 28. dag hvers mánaðar og tekur uppsögn ávallt gildi við fyrsta dag næsta mánaðar.
Hringdu áskilur sér rétt til að taka upp öll þjónustusímtöl til að geta sannreynt efni þeirra. Hringdu áskilur sér jafnframt rétt til þess að nýta upplýsingarnar ef upp kemur ágreiningur milli aðila eða í öðrum þeim tilvikum sem Hringdu telur nauðsynlegt. Skoðun og afhending upptaka er aðeins heimil ákveðnum starfsmönnum Hringdu og yfirvaldi, s.s. lögreglu og eftirlitsstofnunum.
Þegar lögð er inn pöntun á fjarskiptaþjónustu er aðilum skylt að greina rétt frá upplýsingum sem þörf er á hverju sinni. Sama á við þegar aðili sendir pöntun inn rafrænt eða samþykkir tilboð sem hann hefur fengið sent frá Hringdu. Beiðni um fjarskiptaþjónustu eða samþykki við tilboði er bindandi fyrir báða aðila.
Viðskiptavinir Hringdu eiga rétt á bótum vegna tafa á þjónustu eða þjónusturofs er nemur 5% af mánaðargjaldi áskriftar á hvern dag sem töf eða þjónusturof stendur yfir. Til að sækja um bætur þarf að senda póst á hringdu@hringdu.is þar sem tilgreind ástæða bótaumsóknar. Umsókn um bætur skal afgreiða eins fljótt og auðið er og ávallt innan þriggja vikna. Ef bótaumsókn er hafnað geta viðskiptavinir kært þá ákvörðun til Fjarskiptastofu.
Greiðsluskilmálar
Gjald fyrir fjarskiptaþjónustu er skv. gjaldskrám sem Hringdu gefur út á hverjum tíma og eru aðgengilegar í verslun Hringdu og á vefsíðunni hringdu.is
Viðskiptavinur skal greiða heimabanka úrvinnslugjald eða seðilgjald ef óskað er eftir greiðsluseðli, skv. gjaldskrá Hringdu. Viðskiptavinur greiðir hvorugt gjald ef krafa er skuldfærð af kreditkorti.
Viðskiptavinur ber fulla ábyrgð á greiðslum til Hringdu vegna notkunar sem á sér stað á þjónustu eða búnaði, óháð því hvort viðskiptavinur hafi heimilað notkunina eða ekki. Ef viðskiptavinur glatar fjarskiptabúnaði ber honum að tilkynna Hringdu um það tafarlaust. Viðskiptavinur er ábyrgur fyrir allri notkun búnaðarins og þjónustu honum tengdum, þar til slík tilkynning hefur borist Hringdu.
Reikningstímabil fyrir notkun er frá fyrsta til síðasta dags hvers mánaðar. Reikningar eru sendir út með hæfilegum fyrirvara fyrir lok hvers mánaðar og eindagi þeirra er annar dagur næsta mánaðar. Gjalddagi reikninga er útgáfudagur reikninga. Sé reikningur greiddur eftir eindaga greiðir viðskiptavinur dráttarvexti frá gjalddaga til greiðsludags skv. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 ásamt tilheyrandi innheimtugjaldi.
Heimilt er að loka fyrir fjarskiptaþjónustu viðskiptavinar þegar liðnir eru 30 dagar frá eindaga skuldar án þess að hún hafi verið greidd. Fyrsta mánuð eftir lokun símaþjónustu skal vera opið fyrir innhringingu og skal viðskiptavinur geta hringt í neyðarnúmerið 112.
Ef greiðsla fyrir fjarskiptaþjónustu hefur ekki borist innan sex mánaða frá gjalddaga áskilur Hringdu sér rétt til þess að eyða gögnum viðskiptavina.
Ef viðskiptavinur hefur athugasemdir við reikninga verður hann að láta vita um þær án tafar og eigi síðar en á eindaga. Að öðrum kosti telst reikningurinn samþykktur.
Allar breytingar á gjaldskrám sem fela í sér umtalsverðar hækkanir umfram verðlagsþróun mun Hringdu tilkynna áskrifendum með minnst eins mánaðar fyrirvara og getur viðskiptavinur þá sagt þjónustusamningnum upp með 30 daga fyrirvara.
Með samþykki á skilmálum þessum samþykkir viðskiptavinur að öll frum-og milliinnheimta vegna vanskila, þ.e. birting innheimtuviðvörunar og milliinnheimtubréfa, fari fram með stafrænum hætti. Á það við hvort sem um er að ræða innheimtu sem framkvæmd er af Hringdu eða af hálfu innheimtufyrirtækis eða lögmanns sem Hringdu felur að annast innheimtuna. Í stafrænni innheimtu felst að allar tilkynningar vegna vanskila berast viðskiptavini með tölvupósti á uppgefið netfang hans. Viðskiptavinur ber fulla ábyrgð á skráningu netfangs síns og því að tilkynna þær breytingar til Hringdu
sem hann kann að gera á netfangi sínu. Hafi viðskiptavinur vanrækt þá skyldu sína að uppfæra upplýsingar um netfang ber hvorki Hringdu né innheimtuaðili ábyrgð á því að tilkynningar berist ekki viðskiptavini, né því tjóni sem viðskiptavinur kann að verða
fyrir vegna þess að framangreind samskiptaleið var notuð. Viðskiptavinur gerir sér grein fyrir að netfangi hans kann að vera miðlað til þriðja aðila, þ.e. til innheimtuaðila, í
framangreindum tilgangi. Viðskiptavinur gerir sér grein fyrir að þrátt fyrir að innheimta fari fram með stafrænum hætti er frum-og milliinnheimtukostnaður innheimtur í samræmi við reglugerð nr. 37/2019 um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar o.fl.
Viðskiptavini er heimilt að afturkalla samþykki um að innheimta fari fram með stafrænum hætti. Tekur afturköllun gildi um leið og upplýsingarnar eru sannanlega komnar til Hringdu.
Uppsögn
Báðir aðilar geta sagt upp þjónustusamningi, nema þar sem sérákvæði gilda, og skal uppsögnin vera skrifleg. Uppsögn þarf að berast fyrir 28. dags hvers mánaðar og miðast við upphaf nýs reikningstímabils, þann 1. dags hvers mánaðar.
Áskrifendur á einstaklingsmarkaði eiga rétt á því að segja þjónustusamningi upp án greiðslu skaðabóta þegar þeir fá tilkynningu um fyrirhugaða breytingu á skilmálum.
Stofnkostnaður sem getur myndast við upphaf einstaklingsþjónustu greiðist að jafnaði af Hringdu gegn því að viðskiptavinur haldi við þjónustusamning sinn í sex mánuði. Hringdu áskilur sér þann rétt að krefja viðskiptavin um stofnkostnaðinn ef viðskiptavinur segir upp eða færir sig yfir í aðra tegund tengingar innan sex mánaða frá upphafi þjónustu.
Sjá 7. gr almenna skilmála varðandi skil á búnaði í leigu.
Hringdu er heimilt bjóða upp á samninga þar sem viðskiptavinur skuldbindur sig í allt að sex mánuði. Ef viðskiptavinur segir upp slíkum samningi á samningstíma áskilur Hringdu sér rétt til að krefja viðskiptavinar um þau mánaðargjöld sem ógreidd eru af samningstímanum auk riftunargjalds sbr. 14. gr. almennra skilmála.
Skilmálar fjarskiptaþjónustu
Hringdu áskilur sér rétt til að færa þjónustu viðskiptavinar yfir á eigið kerfi af kerfi annara rekstraraðila.
Hringdu lætur viðskiptavin í té aðgang að Internet þjónustu sinni. Notanda er með öllu óheimilt að afhenda lykilorð sitt öðrum aðilum. Viðskiptavinur sem skráður er fyrir þjónustunni ber fulla ábyrgð á allri notkun henni tengdri. Viðskiptavinum Hringdu er með öllu óheimilt að nota aðgang sinn til að komast yfir upplýsingar um aðra notendur á nettengingu Hringdu, aðrar en þær sem veittar eru í opnum gagnagrunnum á Internetinu.
Uppsetning á hugbúnaði er ávallt á ábyrgð viðskiptavinar og ber Hringdu því ekki ábyrgð á tjóni sem notkun eða uppsetning kann að valda.
Hringdu ber ekki ábyrgð á tjóni sem kann að skapast vegna notkunar á tengingu við Internetið eða sambandsleysis við það. Hringdu ber ekki ábyrgð á tjóni sem þriðji aðili kann að valda.
Viðskiptavini er óheimilt að trufla, skerða eða á nokkurn hátt hafa áhrif á notkun annarra viðskiptavina. Viðskiptavinir skulu virða almennar umgengnisreglur sem settar eru á Internetinu.
Fari viðskiptavinur yfir keypt niðurhal áskilur Hringdu sér rétt til að bæta við auka niðurhali umfram það sem er innifalið í áskriftarleið hans. Gjald vegna auka niðurhals er tilgreint í gildandi verðskrá hverju sinni.
Hringdu tryggir ekki að tengihraði notanda sé sá sami og áskrift hans segir til um. Hraði tengingar getur verið háður gæðum línu þeirrar er liggur til notanda, fjarlægð notanda frá símstöð, álags á línu og öðrum þáttum.
Farsímaáskrift ber að nota með farsíma og ferðanetsáskrift skal setja í búnað sem notaður er á ferðalögum eða í sumarbústað, þ.e. búnað sem ekki er hægt að nota fyrir símtöl. Ef áskriftir eru notaðar í öðrum tilgangi eða gagnamagnsnotkun talin óhæfileg að mati Hringdu, er Hringdu heimilt að loka á þá áskrift.
Brot á ofangreindum skilmálum getur valdið tafarlausri lokun á þjónustu.
Persónuverndaryfirlýsing
Með persónuverndaryfirlýsingu þessari er greint frá hvernig Hringdu ehf., kt. 640309-0670, Ármúla 27, 108 Reykjavík, stendur að söfnun, skráningu, vinnslu, vistun og miðlun persónugreinanlegra upplýsinga um viðskiptamenn sína og einstaklinga sem heimsækja heimasíðu félagsins, hringdu.is, hvort sem persónuupplýsingarnar eru geymdar rafrænt, á pappír eða með öðrum hætti.
Yfirlýsingin er aðgengileg á heimasíðu Hringdu, hringdu.is. Hringdu vinnur persónuupplýsingar í samræmi við lög nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Lögin taka m.a. á vinnslu, vörslu og miðlun persónuupplýsinga.
Hringdu leggur mikla áherslu á að virða réttindi viðskiptamanna sinna og að öll meðferð persónuupplýsinga sé ávallt í samræmi við gildandi regluverk á hverjum tíma, sem og í samræmi við bestu venjur sambærilegra aðila.
Tilgangur söfnunnar persónuupplýsinga
Hringdu safnar persónuupplýsingum um þig sem viðskiptamann. Þær upplýsingar eru nauðsynlegar til að tryggja gæði þjónustunnar s.s. til hafa samband við þig og auðkenna. Persónuupplýsingar eru flokkaðar í eftirfarandi flokka:
Tengiliðs- og samskiptaupplýsingar; nafn, kennitölu, símanúmer, netfang, heimilisfang, ásamt grunnupplýsingum úr Þjóðskrá
Auðkenniupplýsingar; notendanöfn, lykilorð, auðkenni SIM-korta fyrir farsíma
Upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna fjárhagsbókhalds og innheimtu; viðskiptayfirlit, reikninga, greiðsluupplýsingar, vanskil, beiðnir, þjónustupantanir, samskipti við þjónustufulltrúa eða verslun
Upplýsingar sem verða til í upplýsingakerfum Hringdu í tengslum við notkun þína á þjónustu okkar; umferð bæði um fastlínu og farsímakerfi, og notkun á SMS þjónustu á hringdu.is
Upplýsingar sem safnað er með vefkökum
Hljóðupptökur símtala og myndefni úr eftirlitsmyndavélum í verslun og skrifstofuhúsnæði
Upplýsingar um símanotkun. Nánar tiltekið upplýsingar í hvern er hringt, hvenær símtal hefst og hvenær því lýkur. Þessi gögn eru aðeins afhent rétthafa á skrifstofu Hringdu gegn framvísun ökuskírteinis eða vegabréfs.
Þegar þú notar heimasíðuna okkar hringdu.is söfnum við upplýsingum um notkun þína, þ.e. IP tölu, tegund eða útgáfu vafra sem þú notar, tímasetningu og lengd heimsóknar og hvaða undirsíður þú heimsækir innan heimasíðu Hringdu, sjá nánar í skilmálum um notkun á vefkökum.
Lagalegur grundvöllur fyrir vinnslu
Hringdu safnar og vinnur persónuupplýsingar byggt á eftirfarandi heimildum:
Til að uppfylla samningsskyldu
Til að uppfylla lagaskyldu
Á grundvelli samþykkis
Til að vernda lögmæta hagsmuni félagsins
Lögmætir hagsmunir Hringdu fela í sér aðgerðir sem nauðsynlegar eru til að stýra starfsemi félagsins og fela í sér nauðsyn til að safna og vinna persónuupplýsingar, s.s. að uppfylla tilgang félagsins samkvæmt samþykktum þess, að sinna viðskiptasambandi við viðskiptavini okkar, að hafa umsýslu með starfsmannamálu m og skipulagi á framkvæmd starfa félagsins, veitingu aðgangs að viðeigandi upplýsingakerfum félagsins, fylgni við innri og ytri reglur, skjölunarkröfur og meðhöndlun beiðna, kvartana og krafna frá þriðju aðilum.
Söfnun persónuupplýsinga um börn
Það er stefna Hringdu að skrá hvorki, né safna, vinna og geyma persónuupplýsingar um börn yngri en 13 ára nema í þeim tilvikum þar sem slíkt er nauðsynlegt til að uppfylla samning sem forráðamaður er aðili að og varðar barn hans eða beiðni forráðamanns um að gera slíkan samning, s.s. hvað varðar farsímaþjónustu fyrir börn.
Geymslutími persónuupplýsinga
Hringdu geymir persónuupplýsingar í þann tíma sem nauðsynlegur er til að uppfylla tilgang vinnslunnar eins og greint er frá honum hér að ofan. Hringdu geymir persónuupplýsingar um núverandi og fyrrum viðskiptamenn. Persónuupplýsingar sem koma fram á reikningum sem þú lætur af hendi geymum við að lágmarki sjö ár í samræmi við bókhaldslög. Endurskoðun á geymslu persónuupplýsinga fer fram einu sinni á ári. Ef kemur í ljós við endurskoðun á geymslu persónuupplýsinga að Hringdu þarf ekki vegna vinnslu eða lagalegra skyldu að geyma persónuupplýsingar þínar mun Hringdu hætta vinnslu og geymslu persónuupplýsingana frá þeim tíma.
Upplýsingaöflun Hringdu
Hringdu safnar persónuupplýsingum frá þér og opinberum yfirvöldum, auk þess sem upplýsingar um notkun þína á þjónustu koma frá heildsala okkar.
Miðlun persónuupplýsinga til þriðja aðila
Hringdu selur ekki undir neinum kringumstæðum persónuupplýsingar um þig. Hringdu miðlar einungis persónuupplýsingum til þriðja aðila þar sem sem slíkt er skylt samkvæmt lögum eða ef um er að ræða þjónustuveitanda, umboðsmann eða verktaka sem ráðinn er af hálfu Hringdu til þess að vinna fyrirfram ákveðna vinnu. Í slíkum tilfellum gerir Hringdu vinnslusamning við viðkomandi aðila sem fær persónuupplýsingarnar þínar. Samningar kveða meðal annars á um skyldu vinnsluaðila til að halda persónuupplýsingum þínum öruggum og að nota þær ekki í öðrum tilgangi. Hringdu deilir einnig persónuupplýsingum með þriðju aðilum þegar slíkt er nauðsynlegt til að vernda brýna hagsmuni félagsins, eins og við innheimtu á vanskilakröfu.
Persónuverndarstefna Hringdu nær ekki til upplýsinga eða vinnslu þriðju aðila en við höfum enga stjórn á né berum ábyrgð á notkun, birtingu eða öðrum verkum þeirra. Við hvetjum þig því til að kynna þér persónuverndarstefnu þriðju aðila, þ. á m. vefhýsingaraðilum þeirra síðna sem geta vísað á okkar, hugbúnaðarfyrirtækja á borð við Facebook, Livechat, Zendesk og Google ásamt þeirri greiðsluþjónustu sem þú kýst að nota.
Réttindi þín
Það er réttur þinn að fá:
Upplýsingar um hvaða persónuupplýsingar Hringdu hefur skráð um þig og uppruna þeirra, sem og upplýsingar um hvernig unnið er með persónuupplýsingar um þig
Aðgang að þeim persónuupplýsingum sem eru unnar um þig, eða óska eftir að þær séu sendar til þriðja aðila
Einnig er það þinn réttur að:
Persónuupplýsingar þínar séu uppfærðar og leiðréttar ef tilefni er til
Hringdu eyði persónuupplýsingum þínum ef ekki er málefnaleg eða lagaleg skylda til að varðveita þær
Koma á framfæri andmælum ef þú vilt takmarka eða koma í veg fyrir að persónuupplýsingar þínar séu unnar
Afturkalla samþykki þitt um að Hringdu megi safna, skrá, vinna eða geymapersónuupplýsingar þínar, þegar vinnsla byggist á þeirri heimild
Upplýsingar um það hvort fram fari sjálfvirk ákvarðanataka, á hvaða rökum slík ákvarðanataka er byggð og endurskoðun á sjálfvirkri ákvarðanatöku
Leggja fram kvörtun hjá eftirlitsyfirvaldi sjáir þú ástæðu til þess
Viljir þú nýta rétt þinn getur þú sent skriflega fyrirspurn á personuvernd@hringdu.is Við óskum þess að fyrirspurninni fylgi útfyllt eyðublað sem sem þú sækir með því að smella hér. Við munum staðfesta móttöku á beiðninni og að jafnaði bregðast við beiðnum innan mánaðar frá móttöku. Verði ekki unnt að bregðast við innan mánaðar munum við tilkynna þér um töf á afgreiðslu innan mánaðar.
Öryggi persónuupplýsinga og tilkynning um öryggisbrot
Öryggi í vinnslu persónuupplýsinga er Hringdu mikilvægt og höfum við gripið til viðeigandi tæknilegra og skipulagslegra öryggisráðstafana til að tryggja vernd persónuupplýsinga þinna í takt við stefnu okkar um öryggi. Komi upp öryggisbrot er varðar þínar persónuupplýsingar, og teljist slíkt brot hafa í för með sér mikla áhættu fyrir frelsi og réttindi þín, munum við tilkynna þér um það án ótilhlýðilegrar tafar. Í þessum skilningi telst öryggisbrot atburður sem leiðir til þess að persónuupplýsingar þínar glatist eða eyðist, þær breytist, séu birtar eða óviðkomandi fái aðgang að þeim í leyfisleysi. Hér viljum við þó vekja athygli á því að þær persónuupplýsingar sem þú deilir með okkur á samfélagsmiðlum, t.d. Facebook síðu Hringdu teljast opinberar upplýsingar og ekki á forræði okkar þar sem Hringdu hefur enga stjórn á slíkum upplýsingum né ber ábyrgð á notkun eða birtingu þeirra. Standi vilji þinn ekki til þess að deila þeim upplýsingum með öðrum notendum eða veitanda samfélagsmiðlaþjónustunnar skaltu ekki deila upplýsingum á samfélagsmiðlum okkar. Við hvetjum þig einnig til að kynna þér persónuverndarstefnu þessara aðila, Facebook, Livechat, Google og Zendesk.
Önnur ákvæði
Rísi upp ágreiningur um túlkun og skýringu á skilmálum þessum getur viðskiptavinur sent Hringdu kvörtun og eftir atvikum leitað til Póst og fjarskiptastofnunar.
Viðskiptavinur er ábyrgur fyrir því að skilmálum þessum og lögum almennt sé fylgt. Um fjarskiptaþjónustu gilda lög um fjarskipti nr. 81/2003 ásamt síðari breytingum. Brot á skilmálum og reglum getur valdið tafarlausri lokun á þjónustu.
Viðskiptavinur veitir Hringdu með undirskrift eða staðfestingu á samningi um fjarskiptaþjónustu umboð til að segja upp fjarskiptaþjónustu hjá öðrum þjónustuveitum.
© Hringdu 2023 allur réttur áskilinn.